Þessi síða er í vinnslu !

Úttekt vegna rakaskemmda og myglu

Afhverju eru mismunandi niðurstöður frá fagaðilum varðandi rakaskemmdir og myglu?

Úttektir á rakaskemmdum og myglu eru mjög mismunandi og margir fagaðilar sem bjóða þjónustu sem getur gefið mismunandi niðurstöður. 

Vandamálið á Íslandi er að úttektir eru ekki samhæfðar og aðferðir í einhverjum tilfellum gefa ekki endilega marktækar niðurstöður og í einhverjum tilfellum eru notaðar aðferðir þar sem er erfitt að túlka niðurstöður. 

Niðurstöður geta því verið mismunandi og fara eftir því hvernig ástandið er skoðað og metið. Niðurstaðan ræðst þá af aðferðum, túlkun og þekkingu skoðunaraðila. Því miður er það staðreynd að húsnæði getur verið með umfangsmiklum rakaskemmdum en fagaðili túlkar það ekki þannig og getur gefið út niðurstöður um að ástandið sé ásættanlegt. Að sama skapi getur húsnæði þarfnast einhverra úrbóta en skoðunaraðili metur það mun verra en raunverulega er. Þar sem engin viðmið eða staðlar gilda um skoðanir eða úttektir þá getur þetta komið fyrir. 

 

Mikilvægasta skrefið í úttektum vegna rakaskemmda er að rakaskima húsnæði, taka tillit til efnisvals og skoða ástand vegna mögulegs rakaflæðis og ástands. 

Síðan í framhaldi er hægt að ákveða sýnatökur og aðrar frekari rannsóknir.

Púsluspil fagaðila
Í raun má segja að úttekt á húsnæði vegna rakaskemmda sé fólgin í því að safna sem flestum vísbendingum eða púslum saman til að fá fram heildarmynd af ástandi byggingar vegna raka. Nauðsynlegt er að fagaðili safni nógu mörgum púslum og raði saman til þess að geta dregið ályktun um ástand og leggi til úrbætur. Eitt eða tvö púsl gefa takmarkaða  vísbendingu að heildarmyndinni.

Púslin geta verið eftirfarandi:
• Skoðun á teikningum
• Mat á húsagerð, byggingarlagi og byggingarefni
• Rakaskimun með rakamæli
• Sjónræn skoðun
• Saga byggingar, tjón, viðgerðir og framkvæmdir
• Skoðun með hitamyndavél
• Skoðun og mat á rakaflæði og byggingareðlisfræði
• Loftræsing og möguleiki til loftskipta
• Önnur efni, efnisval
• Mannmergð
• Sýnataka; byggingarefni, ryksýni, loftsýni

Er hægt að útskrifa húsnæði myglufrítt?
Það er vissulega áskorun að skoða og meta húsnæði vegna rakaskemmda. Rakaskemmdir og mygla eru oftar en ekki falin inni í veggjum og undir gólfefnum eða í þakrými og því erfitt að finna. Í rakaskemmdu húsnæði má, eins og áður hefur komið fram, finna myglusveppi, bakteríur, geislabakteríur, afleiðuefni, útgufunarefni úr byggingarefnum, eiturefni, agnir og aðrar rakasæknar lífverur.

Mygla eða gró hennar eru aðeins brot af þeirri örveru- og efnasúpu sem má finna í rakaskemmdum. Einfaldar grómælingar á myglu, gefa því ekki endilega raunsanna mynd af ástandi eða loftgæðum byggingar vegna rakaskemmda (Mendell, 2021). Undirrót alls þessa er raki sem er til staðar, eða hefur verið áður, vegna vatnstjón, leka eða rakaþéttingar. Úttekt á rakaástandi byggina er því mikilvægasta skrefið.

Þar sem loftborin gró finnast víða og mygla eða rakasæknar örverur vaxa gjarnan í híbýlum er ekki hægt að útskrifa húsnæði myglufrítt, þá frekar er hægt að segja að húsnæði sé án rakaskemmda eða rakavanda.

Skoðun og mat á húsnæði vegna rakaskemmda
Við úttekt á húsnæði vegna raka og myglu ætti ekki eingöngu að einblína á það hvort sjáanleg mygla eða mælanleg myglugró séu til staðar í húsnæðinu heldur ástandi þess og hvar viðvarandi raka eða leka er að finna. Greina þarf möguleg eldri vatnstjón og leka, og hvað má gera til að bæta úr. Einnig þarf að kynna sér sögu, uppbyggingu, efnisval og notkun. Rakamælingar eru nauðsynlegar til þess að átta sig á rakaástandi, enda er oft raki í byggingarefnum þó hann sjáist ekki með sjónrænni skoðun. Þá er ekki síður mikilvægt, að skoðunaraðili sé reynslumikill, með tilbæra fagþekkingu og þjálfun sem þarf til þess að meta rakaástand, beita sjónrænu mati og nota rakamæla. Þar sem þurrar rakaskemmdir og mygla hafa sömu heilsufarsáhrif og þar sem raki er, og því vandast málið þegar þarf að staðsetja þær. Þá er gott að þekkja sögu húsnæðis og áhættustaði í húsum vegna rakavanda og hafa góð tök á sjónrænu mati.

Uppsafnaður vandi
Það kemur fyrir að rakaorsök sé stöðvuð utandyra, t.d. leki meðfram skorsteini, leki frá glugga eða við plötuskil. En í kjölfarið sé viðgerðum innandyra aftur á móti ábótavant, og þau svæði látin þorna án þess að rakaskemmd byggingarefni séu fjarlægð eða hreinsuð á viðeigandi hátt. Umfangsmikil vandamál í húsnæði á Íslandi má einmitt rekja til þess að það skortir heildræna úttekt og viðgerðir, og má segja að vandinn sé uppsafnaður í mörgum tilfellum. Að hluta til má því útskýra það ástand sem blasir við okkur í dag með því, að þekking til að bregðast við rakaskemmdum innandyra hafi skort. Vandinn er því oft orðinn stór og uppsafnaður innandyra, þannig að kostnaður við viðgerðir getur orðið ansi mikill, eins eru þá loftgæði orðin afar slök og oft með tilheyrandi veikindum sem tengjast viðveru í húsinu.

Sýnatökur
Þegar búið er að meta húsnæði vegna raka, getur fagaðli metið hvort þörf er á sýnatöku eða frekari rannsóknar með því til dæmis að opna inn í byggingarhluta. Sýnatökur eru margs konar og í raun má segja að hver sýnataka gefi mismunandi niðurstöður eða vísbendingar.

Sýnataka getur ekki svarað öðru en þeirri rannsóknarspurningu sem er sett fram hverju sinni. Þess vegna þarf að fara varlega í að túlka heimapróf til myglusveppaprófunar. Prótínpróf þar sem er strokið eftir fleti og skoðað hvort að svarið sé fjólublátt, grænt eða blátt. Það fer t.d. eftir því hvar og hvernig sýni er tekið, hvaða niðurstöður prófin gefa til kynna. Jákvætt svar á heimaprófi sem tekið er við rúður með svörtum skellum, segir ekki endilega til um ástand á húsnæði, heldur eingöngu að rakaþétting hafi verið við rúður og mögulega mygla vaxið þar upp. Einnig þarf að gæta sín á því að flest prótínpróf verða grá eða fjólublá eftir einhvern tíma og eru aðeins marktæk fyrstu 10 mínúturnar eftir að þau eru tekin.

Það þarf að átta sig á því hverju við viljum fá svar við með sýnatöku, t.d. hvort staðfesta þurfi örveruvöxt, tegundagreina eða kanna hversu djúpt inn í byggingarefni hann nær.

Tryggjum öryggi notenda
Í nágrannalöndum okkar hafa verið gefnir út leiðarvísar varðandi skoðun og mat á húsnæði til þess að takmarka þá áhættu sem skapast getur þegar aðilar beita mismunandi aðferðum við mat eða sýnatökur. Með því er notendum tryggt öryggi.

Á Íslandi eru úttektir ekki samhæfðar og aðferðir í einhverjum tilfellum gefa takmarkaðar niðurstöður. Niðurstöður geta því verið misvísandi og endurspegla ekki ástand vegna loftgæða og tryggja því ekki öryggi notenda, sérstaklega ef rannsókn byggir eingöngu á ryksýnum eða loftsýnum.

Markmið með úttekt á rakaskemmdum er að bæta innivist og loftgæði og þar með lágmarka áhrif á heilsu þeirra sem þar dvelja auk þess að viðhalda gæðum og verðmæti eignar. Mikilvægasta skrefið í úttektum er að rakaskima húsnæði og skoða ástand vegna mögulegs rakaflæðis og lekaleiða. Síðan er hægt að ákveða sýnatökur og aðrar frekari rannsóknir.

 

Hvaða upplýsingar þarf notandi að fá til að vita hvort húsnæði sé í lagi eða þarfnist úrbóta?

1 Eru rakavandamál til staðar ? Samkvæmt WHO þá er rakavandi í byggingarefnum áhættuþáttur, það þarf ekki að finna myglugró á yfirborði til að úrskurða um að þörf sé á úrbótum.

2 Eru ummerki um leka eða óþægileg lykt? Samkvæmt faraldsfræðilegum rannsóknum þá er lykt ein sterkasta vísbending um að áhætta sé til staðar fyrir heilsu. Síðan eru ummerki ein og sér nægileg til þess að meta að úrbóta sé þörf. Viðvarandi lekum og rakavandamálum ætti alltaf að bregðast við og fjarlægja rakaskemmd byggingarefni..

3 Eru veikindi sem má tengja viðveru í rými eða húsnæði? Það eitt og sér er nægilegt til þess að þörf sé á úrbótum og jafnvel finna hvaða þáttur það er sem veldur einkennum. Það eru ekki eingöngu rakaskemmdir sem þarf að hafa í huga heldur allir þættir sem geta haft áhrif á innivist. Í einhverjum tilfellum er hægt að bæta úr á einfaldan hátt. Í öðrum tilfellum er einstaklingur næmur og þarf sérúrræði eða jafnvel flutning á milli rýma eða aðrar mótvægisaðgerðir. 

4 Sýnatökur með ryksýnum eða loftsýnum gefa ekki marktæka niðurstöðu um ástand eða heilnæmi bygginga. Niðurstöður sem byggja á sýnum af ryki sem eru tekið á límband og skoðað í smásjá gefa ekki marktækar niðurstöður, heldur eingöngu vísbendingu. Sýni úr lofti á sama hátt gefa einnig takmarkaðar upplýsingar. Sérstaklega ef greining á sýnum fer fram þannig að gró á sveimi í lofti eru ræktuð upp í agarskál á æti og taldar kóloníur. Það eru margir takmarkandi þættir við slíkar sýnatökur: mismunandi æti hentar tegundum myglu, þær vaxa mishratt (þurfa mislangan tíma og aðstæður), þær eru misjafnlega ,,frekar,, ( taka völdin í agarskál og sumar tegundir sem finnast í loftinu ná ekki að vaxa upp), mörg gró eru ekki virk og ná ekki að vaxa, aðrar agnir úr myglusveppum og svepphlutar koma ekki fram í sýni. Aðrar agnir en gró eru talin vera að minnsta kosti 500 sinnum fleiri en gró á hverjum tíma. 

Viðmið fyrir slíkar greiningar eru óljós. Alltaf þarf að tegundagreina og skoða byggingu í samræmi við rakaástand og niðurstöður sýna. 

---------------------------------------------------------------

Í Heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er lagt upp með að tryggja öllum góða heilsu og þar með talið gott loft og umhverfi, nær og fjær.

SDG 3: Góð heilsa og vellíðan: Að tryggja góða heilsu og vellíðan allra aldurshópa (heimsmarkmidin.is).