Hreinsun eftir rakaskemmdir, búslóð og fatnaður
Þar sem umfang rakavandamála er töluvert eða meira en 1 m2 er venjulega mælt með að hafa samband við fagaðila sem hafa farið á námskeið í hreinsun á rakaskemmdum og mygluðum svæðum.
Þegar rakaskemmdir verða á heimili má búast við að agnir og afleiðuefni frá rakaskemmdum hafi borist í búslóð með loftstraumum.
Í rakaskemmdum húsum má finna aukið magn myglsuveppa sem vaxa við raka, bakteríur, geislabatkeríur og afleiðuefni þessara örvera bæði eiturefni og önnur efni. Einnig verður frekari útgufun á rokgjörnum efnum (VOC= volatile organic compouunds) frá rökum byggingarefnum.
Þar sem ekki er vitað hvaða agnir eða efni framkalla einkenni þarf að hreinsa þannig að allar agnir verði fjarlægðar af búslóð og fatnaði og þar að auki að sótthreinsun eigi sér stað.
Það gefur því auga leið að helsta áskorun við hreinsun er að þrífa pappír og textíl þannig að viðkomandi einstaklingur finni ekki til einkenna við áframhaldandi notkun. Það er takmark við hreinsun á húsmunum eftir rakaskemmdir, að eigandi geti umgengist þessa muni án þess að verða fyrir váhrifum.
Þar sem ekki er auðveldlega hægt að mæla þessar agnir og efni, auk þess sem við þekkjum ekki nógu vel hverjar þeirra þurfi að varast getur verið afar erfitt í einhverjum tilfellum að hreinsa og þrífa þannig að fullnægjandi árangur náist.
Það má þó nefna að það fer eftir aðstæðum, umfangi rakaskemmda, staðsetningu muna og einkennum eiganda eða notanda hversu langt þarf að ganga við hreinsun. Í einhverjum tilfellum þarf að farga húsmunum.
Þær aðferðir sem hér verða listaðar upp eru þær sem má finna í helstu leiðarvísum fyrir almenning í nágrannalöndum okkar.
Ef tekin er ákvörðun um að farga húsmunum þá er venjulega skipt fyrst og fremst út rúmi, dýnu og textíl sem er á svefnstað. Við verjum 1/3 ævinnar á þeim stað, hvílumst og eigum að nota þann tíma til ,,viðgerða" í líkamanum ef um einhverja kvilla er að ræða. Góður svefn er því lykilatriði til þess að ná bata eftir rakaskemmdir og neikvæð umhverfisáhrif.
Venjulega er því endurnýjuð þau húsgögn sem eru í svefnherbergi og pappír úr rakaskemmdu húsnæði er ekki geymdur á svefnstað.
Bæklingur
Bæklingur Umhverfisstofnunar: Inniloft, raki og mygla í híbýlum; Leiðbeiningar fyrir almenning
Framkvæmdir
Fjarlægja þarf húsgögn, búnað og aðra muni úr vinnurými á meðan framkvæmdir standa yfir. Velja þarf hentugt svæði þar sem hlutir eru þrifnir og síðan farið með þá beint yfir á hreint svæði. Stundum er hægt að afmarka rými með plasti. Fjarlægja þarf allt út úr vinnurými, s.s. húsgögn, húsbúnað, rafmagnstæki, myndir, ljós/lampa, gardínur og aðra lausa hluti. Reyna skal eftir fremsta megni að koma í veg fyrir krosssmit, hreinir hlutir eiga takmarkað að komast í snertingu eða nærri hlutum sem hafa ekki verið hreinsaðir.
Hreinsa í samræmi við eftirfarandi:
• Blása með loftpressu og/eða ryksuga alla fleti með HEPA síu í ryksugu.
• Blása innan úr tölvum og tækjum.
• Þurrka af öllum flötum með umhverfisvænu efni með sótthreinsandi eiginleika.
• Setja pappír og gögn í plastkassa eða riflásapoka.
• Setja textíl og fatnað í lokaða plastpoka eða hirslur, hreinsa síðar.
Tæki
Ávallt skal nota ryksugu með HEPA síu (H12 eða hærra) við hreinsun á rakaskemmdum (fæst í flestar tegundir ryksuga). Einnig er hægt að blása úr með loftpressu eða ryksuga vel hluti eins og rúm og bólstruð húsgögn. Í flestum tilfellum er einnig nauðsynlegt að hreinsa gró og agnir af þeim flötum og búslóð sem hafa verið í snertingu við inniloft sem hefur borist frá þeim svæðum þar sem myglusveppur er í vexti.
Efni
Notkun efna er aldrei lausn ein og sér heldur einungis lokaskref til að sótthreinsa svæðið. Mikilvægast er að fjarlægja rakaskemmd byggingarefni og myglu.
Mikilvægt er að benda á að það er mælt með að nota umhverfisvæn efni sem hafa sem minnst áhrif á umhverfið og íbúa. Það má velja efni eftir því hvað hentar hverju sinni en mælt er sérstaklega með efnum sem eru umhverfisvæn, leysiefnalaus og ilmefnalaus.
Reynslan í þessum málum hefur sýnt að einstaklingar sem hafa búið eða starfað í rakaskemmdu húsnæði eru oft næmir fyrir kemískum efnum, leysiefnum og/eða ilmefnum.
Vetnisperoxíð eða Oxivir er það efni sem er mikið notað í dag við hreinsun eftir myglu og hefur sótthreinsandi eiginleika.
Vetnisperoxíð er umhverfisvænt efni og ekki talið valda skaða ef varlega er farið. Besta virknin er þegar efnið fær að standa í cirka 10–15 mínútur áður en það er þurkað af þeim fleti sem á að hreinsa. Sumir viðkvæmir fletir gætu mögulega upplitast ef efnið stendur of lengi og því er mælt með að prófa fyrst á litlu svæði. Hægt að nálgast frekari upplýsingar um innihald og eiginleika á heimasíðu Tandurs. http://www.tandur.is/is/page/oryggisblod
Tea tree olía hefur sótthreinsandi og bakteríudrepandi eiginleika og hefur lengi verið notuð við ýmsum vandamálum s.s. sveppum á tánöglum, bólum, ýmsum húðkvillum og til hreinsunar. Það er mikilvægt að hafa í huga að fara varlega ef olían er notuð útvortis á húð fólks þar sem hún getur verið ertandi fyrir suma. Alls ekki er mælt með inntöku þar sem hún er talin geta valdið eitrunareinkennum. Tea Tree olían hefur neikvæð áhrif á sveppamyndun og er fyrirtaks forvörn í þvottavélina sem og á þéttikanta í gluggum og timbur. Þegar olían er notuð í þvottavél eru settir 3-8 dropar með þvottaefni eða eftir magni þvottsins. Ekki er mælt með notkun mýkingarefnis þar sem það myndar einskonar filmu eða húð yfir þræði í efnum svo olían á erfiðara með að vinna á þvottinum.
Sumir eru með óþol eða ofnæmi fyrir Tea tree olíu og í henni eru terpenar sem geta verið ertandi fyrir einhverja.
Rodalon er notað mikið í þvottvélar, en það má ekki nota efnið með öðrum sápuefnum þar sem það skerðir virkni efnisins. Rodalon ætti aðeins að nota við hreinsun í vel loftræstu rými.
Önnur efni sem eru umhverfisvæn, vistvæn, hafa sótthreinsandi eiginleika og hafa ekki neikvæð áhrif á inniloft til þess að skerða ekki virkni þess
Hreinsun á fatnaði
Það sama gildir um fatnað og aðra hluti að það getur reynst erfitt að fjarlægja agnir og efnaafleiður úr vefnaðarvörum. Takmarkið er ekki endilega að sótthreinsa, heldur skola og ,,hrista" agnir úr fatnaðinum.
Takmarkið er að þvo nokkrum sinnum í röð og efni sem hafa reynst vel en þó misjafnlega eftir aðstæðum innihalda borax eða ammoníak og talin árangursríkust af reynsluboltum. Einnig er hægt að nota Oxivir, Rodalon eða önnur sótthreinsiefni sem eru ekki með varúðarmerkingum.
Ávallt skal skola vel eftir hreinsun með efnum.
Margir nota edik og matarsóda eða blöndu úr þeim til almennra þrifa og þvotta.
Við hreinsun á fatnaði og húsmunum ætti aldrei að nota efni með ilmefnum eða öðrum ertandi efnum sem hafa neikvæð áhrif á heilsu.