Þessi síða er í vinnslu !

Raki og mygla við rúður og kuldabrýr, grætur húsið þitt?

Á köldum vetrardögum er veðrið einmitt til þess fallið að mörg hús eru gráti nær. Húsin gráta vegna raka­þétt­ingar inn­an­dyra. Þessi raki kemur venjulega frá íbúum og hefðbundnu heimilishaldi.

Raka­þétt­ing
Helstu ummerki eru að við glugga má sjá vatn eða móðu. Í hornum við útveggi liggja taumar. Rakinn getur valdið tjóni þannig máln­ing byrjar að bólgna. Í verstu til­fellum er komin svört, græn, grá eða bleik slikja á útvegg, við rúður eða glugga. Þarna leyn­ist stundum mygla eða aðrar örver­ur, sem ein­göngu ná að vaxa upp vegna raka.

Gró á sveimi allsstaðar
Gró myglu eru þegar til staðar alls staðar og eru ekki til ama fyrr en þau ná nógu miklum raka til þess að vaxa up og mynda myglu­svepp. Þau geta nýtt sér rykagnir þegar annað er ekki í boði eins og á gleri.

Myglu- eða prótín­próf
Margir grípa til þess ráðs að kaupa ,,myglu­próf“ sem verða fjólu­blá sé þeim strokið yfir þessi svæði. Þessi próf eru næm fyrir prótínum og svara ef prótín­magn er hækkað á því svæði sem er strokið yfir. Þetta eru ekki sér­tæk myglu­próf en geta nýst til þess að fá vís­bend­ingar sé þeim beitt á réttan hátt. Mygla og bakt­er­íur eru prótín­rík líkt og aðrar líf­ver­ur. 

Af hverju grætur húsið mitt?
Við venju­legt heim­il­is­hald fjög­urra manna fjöl­skyldu getur raka­inni­hald og vatns­magn í lofti auk­ist um að minnsta kosti 40 lítra á viku. Heitt loft getur haldið þessum raka í meira magni en kalt loft. Þessi raki í loft­inu getur síðan orðið að vatni við það að kom­ast í snert­ingu við kaldan flöt. Hver þekkir ekki að gler­flaska sem er tekin út úr ísskáp ,,græt­ur“ á yfir­borði þegar við tökum hana út og þá sér­stak­lega ef heitt og rakt er í kringum okk­ur. Gott dæmi er kaldur svala­drykkur erlend­is. Það sama ger­ist á veggj­um, við glugga og rúður í hús­unum okk­ar.

Á vet­urna þegar það er kalt úti þá kólna vegg­fletir og rúður. Rak­inn sem er í heitu röku lofti hjá okkur inn­an­dyra nær þá að dagga, eða falla út á þessum flöt­um, líkt og á svala­drykkn­um. Í ein­hverjum til­fellum má hrein­lega sjá vatn við glugga og oft telur hús­eig­andi að glugg­a­rnir hljóti að leka. En þegar betur er að gáð þá má merkja mun­inn á því að þessi raki kemur ekki ein­göngu við slag­veður eða í úrkomu, heldur einmitt á köldum vetr­ar­dög­um.

Opnum glugga og aukum loftskipti
Í okkar veðr­áttu er ansi freist­andi að híma inn­an­dyra með lok­aða glugga og njóta hlýj­unn­ar, sérstaklega að vetrarlagi. Húsin okkar eru ekki endi­lega á sama máli. Við þurfum að skipta um loft inni hjá okkur að minnsta kosti tvisvar til þrisvar á dag til þess að tryggja betri loftgæði og lægri loftraka inni hjá okkur.

Hvað er kulda­brú?
Við á Íslandi ein­angrum gjarnan húsin okkar að innan og það bygg­ing­ar­lag eykur líkur á kulda­brúm. Það er að segja án þess að fara út í tækni­leg atriði þá eru frekar kaldir fletir á yfir­borði veggja en í húsum sem eru ein­angruð að utan. Þessir fletir eru þá sér­stak­lega þar sem gólf- eða loft­plata mætir útvegg, í hornum á milli útveggja. Þess vegna er mik­il­vægt að við áttum okkur á því að þessi veik­leiki er til staðar og að við þurfum að gæta að því hvernig við hegðum okkur og hver loft­rak­inn er inni hjá okk­ur. 

Svartir blettir í hornum á milli útveggja
Í mörgum húsum má sjá svarta bletti, doppur eða dökka slikju efst við loft. Þessi kuldabrú þar sem er hætta á rakaþéttingu er einkum að finna í húsum einangruðum að innan. Í einhverjum tilfellum getur þó einnig verið leki frá útvegg, plötuskilum eða gluggum efri hæðar. Það þarf að ganga úr skugga um ástæður myglumyndunar í hornum við loft til þess að uppræta hana.

Loftraki innandyra
Það er mismunandi hvaða loftraka byggingarnar okkar þola, það fer meðal annars eftir byggingarlagi. Venjulega er þó hægt að miða við að halda loftraka undir 55% á veturna og helst á bilinu 30-45%.

Að sama skapi getur heitt rakt loft í ein­hverjum til­fellum þéttst og grátið innan í veggj­um, á milli ein­angr­unar og steypu við ákveðnar aðstæð­ur. Þessar afleið­ingar of mik­ils raka­á­lags sjáum við ekki eins og raka­þétt­ingu á rúð­u­m. Þessi rakaþétting á sér stað innan í útveggjum eða á þakklæðningu í þakrými.

Inni­vist og loft­gæði
Í þessum pistli verður ekki farið yfir hönnun húsa og hvað er til ráða til fram­tíð­ar. Fyrst og fremst bent á þau atriði sem við sem búum í húsum þurfum að hafa í huga til þess að lág­marka þessa áhættu sé þess kost­ur. Ef slíkar aðstæður eru til staðar og ef upp vaxa örver­ur, mygla eða bakt­er­íur geta loft­gæði inn­an­dyra skerst og á sama tíma aukið líkur á heilsu­farskvillum sem tengj­ast önd­un­ar­færum og sýk­ingar verða jafn­vel tíð­ari. Þessa áhættu metur Alþjóða­heil­brigð­is­mála­stofn­unin og fjallar þá um raka og myglu í sam­hengi sem áhættu­þátt vegna heilsu.

Góð loft­gæði inn­an­dyra auka vellíðan og bæta heilsu.
Ferskt úti­loft og loft­skipti spila lyk­il­hlut­verk í að ná ásættanlegum loftgæðum. Í þéttum húsum þar sem gluggar eru opn­aðir sjaldan og loft­skipti tak­mörkuð getur orðið upp­söfnun á koltví­sýr­ingi, sem við gefum frá okkur og öðrum efnum sem fylgja hús­bún­aði, hrein­læt­is­vörum og þrif­um. Gæði svefns og vellíðan í húsum ræðst að miklu leyti af loft­skipt­um.

Eft­ir­far­andi atriði ætti meðal ann­ars að hafa í huga:
 
- Loft­raki inni hjá okkur hækkar við eft­ir­far­andi -
Þvotta, þurrkun á þvotti, bað­ferð­ir, mat­ar­gerð og inni­veru fólks.

- Loft­raka­mælir ætti að vera til á hverju heim­ili. Þeir fást m.a. í bygg­ing­ar­vöru­verls­unum eða net­versl­unum og eru einkum gagnlegir til þess að læra hvaða hegðun eykur loft­raka og hvenær er þörf á að bregð­ast við. Mælirinn er þá færður á milli herbergja til dæmis í viku í senn til þess að fylgjast með í upphafi, síðan er valinn staður í húsinu sem er dæmigerður fyrir loftrakann. 

- Loft­raki ætti að vera undir 45% og jafn­vel 30% þegar er kalt/vet­urna hærri á sumrin en þó ekki hærri en 65-70%. Rakahlutfall innandyra er nokkuð háð húsa­gerð og aðstæð­um. Móða á glugga eða spegli er þó við­vörun og þá er tilefni til þess að bregðast við.

- Loft­skipti þurfa að vera reglu­leg - Þum­al­putta­regla er að skipta um loft tvisvar til þrisvar á dag, hreint og ferskt úti­loft inn staðinn fyrir inni­loft. Við það að opna glugga verða ekki endi­lega loft­skipti, það þarf að gusta í gegn. Útsog í íbúðum þarf að hafa loft­flæði inn á móti til að mynda ekki und­ir­þrýst­ing, það er að segja þar sem er útsog þarf að tryggja að það komist einhvers staðar inn ferskloft á móti. Í nýbyggingum má nú til dags stundum sjá ventla á útveggjum eða jafnvel loftristar á gluggum sem tryggja hreyfingu loftsins.

-Forðast myndun undirþrýstings í íverurými. Und­ir­þrýst­ingur getur aukið leka t.d. inn með gluggum þar sem þrýstingurinn ,,togar" vatnið inn um raufar og þéttingar þar sem öllu jafna lekur ekki. Einnig getur und­ir­þrýst­ingur valdið því að loftbornar agnir frá þak­rými eða innan úr veggjum berst inn í íverurými og skert loft­gæði.  Í þessum byggingarhlutum getur leynst einhver mygla sem hefur takmörkuð áhrif þegar ekki er undirþrýstingur og einnig má oft finna rykagnir og einangrunarþræði sem skerða loftgæði. Þegar opnað er upp í vind­ er und­ir­þrýst­ingur tak­mark­að­ur, öfugt ef opnað er hlé­meg­in á byggingum þegar er vindasamt.

- Í svefn­her­bergjum ætti að vera rifa á rúðu yfir nótt­ina. Loftskipti í svefnrými bæta svefngæði og vellíðan. Gard­ínur ættu ekki að vera þétt við rúður eða loka þannig alveg loft­flæði við rúður, það eykur líkur á rakaþéttingu og myglumyndun við rúður.

- Hús­gögn, rúm­gaflar og annað ættu ekki að liggja þétt að útvegg. Sérstaklega er þetta mikivægt í nýbyggingum, steyptum húsum þar sem steypan á eftir að losa sig við umtalsvert magn af raka. Einnig þarf að hafa þetta í huga í húsum sem eru einangruð að innan, sérstaklega þeim eldri. Einangrun í eldri húsum getur verið ábótavant.

- Ryk­söfnun við rúður eða í hornum getur aukið líkur á að örverur nái að vaxa upp við raka. Rykagnir geta nýst þessum örverum sem æti og þar að auki loða agnir við ryk sem skerða loftgæði.

- Umfram raka ætti ávallt að þurrka upp, eftir baðferðir, við rúður, í þvottahúsi og annar staðar þar sem er verið að eiga við vatn. Við rúður og í gluggakistum á morgn­annamá stundum jafnvel sjá pollamyndun. Dæmi eru um að þessi raki skemmi timbur í gluggum og jafnvel nái niður í gólfefni og skemmi þau.

Við búum öll í húsum og þau veita okkur skjól, því ætti það að vera hluti af fræðslu í skólum að kenna okkur að lifa í þeim og líða vel.

Þessar upplýsingar hér eru alls ekki tæm­andi og margir aðrir þættir sem við þurfum að huga að. En von­andi grætur húsið ykkar minna eftir lest­ur­inn, að minnsta kosti getið þið þurrkað tár­in.

 

Heitt rakt loft berst að innan og út. Steyptur útveggur er illa einangrandi og leiðir kuldann inn þar sem skortir einangrun á milli hæða, þar þéttist rakinn í hornum.