Rakaskemmdir, mygla og heilsa
Rakaskemmdir í húsum einkennast ekki eingöngu af myglusveppum. Myglusveppir, rakasæknar örverur eins og bakteríur, afleiðuefni þessara lífvera og efni sem gufa upp í andrúmsloftið þegar byggingarefni eru rök geta hlaðist upp í lofti innandyra og haft neikvæð áhrif á heilsu. Ekki er ljóst hvaða agnir og efni, í hvaða magni eða hvernig samspil þessara þátta hefur áhrif. En það sem liggur ljóst fyrir er að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, EPA, CDC og fleiri opnberir aðilar hafa gefið það út að viðvera í rakaskemmdu húsnæði getur haft áhrif á heilsufar og vellíðan. Það hafa ekki verið gefin út magnbundin viðmið vegna heilsuáhrifa myglu -gróa, -efna eða -svepphluta heldur eru gefnar leiðbeiningar um að í heilsufarslegu tilliti skuli byggingar vera þurrar og hreinar þannig að ekki stuðli að vexti rakasækinna lífvera.
Þekkt áhrif sveppa á heilsu eru eftirfarandi:
Ofnæmisviðbrögð—í sumum tilfellum er fólk með ofnæmi gagnvart myglusveppum einkenni: úbrot, nefrennsli, rauð augu, hnerrar, hóstar og önnur einkenni í öndunarfærum. Mjög fáir eru með greint ofnæmi fyrir myglusveppum eða líklega aðeins 2-5%.
Sýkingar—sveppasýkingar í lungum, ennisholum, og ofl. Sveppasýkingar í blóði verða nær eingöngu hjá fólki sem hefur bælt ónæmiskerfi af einhverjum orsökum.
Eituráhrif—algengustu áhrif myglusveppa eru líklega tengd eiturefnum/ mycotoxínum sem þeir framleiða. Það eru til margar rannsóknir sem sýna fram á áhrif þessara eiturefna á heilsu manna og dýra. Þessi efni geta komist inn í líkamann við öndun, í gegnum húð eða við inntöku. Eituráhrifin geta valdið bólguviðbrögðum í líkamanum sem mögulega skýrir þessi flensulíku-einkenni sem margir finna til í rakaskemmdu húsnæði.
Við langvarandi váhrif verða einkennin oft fleiri og öflugri. Einhverjar tegundir myglusveppa sem vaxa í rakaskemmdum byggingum geta við ákveðnar aðstæður myndað annars stigs efnasambönd, myglusveppaeitur ( mycotoxin). Það liggur ekki alveg fyrir hvernig eða í hvaða magni þessi eiturefni hafa áhrif á heilsu. Þess vegna eru heldur ekki til nein viðmið á þessum mygluefnum í innilofti vegna heilsufarsáhrifa. Sérstaklega þar sem áhrif eiturefna við innöndun eru ekki fullkomlega þekkt í dag. Það eru til miklar upplýsingar um skaðsemi eiturefna við beina inntöku og upptöku í gegnum meltingarveg. Það eru þó ekki til viðmiðunarmörk fyrir öll eiturefni (mycotoxin) í fæðu eða fóðri enn þann dag í dag. Einna helst er það álitamál hversu mikið magn eiturefna þarf að berast inn í líkamann við innöndun eða inn í gegnum húð til þess að einkenni eitrunar komi fram. Einnig er ekki ljóst hversu langan tíma þarf að vera í rakaskemmdu húsnæði til að fá einkenni við innöndun. Rannsóknir hafa þó bent til þess að við innöndun berist nægilegt magn eiturefna inn í líkamann til þess að valda skaða, og að í húsnæði með rakavandamál er mikið magn af annars stigs efnum, afleiðuefnum og lífrænum eiturefnum. Það má þó hafa í huga að það er þekkt að upptaka efna í lungum getur verið að allt að 10-100 sinnum hraðari en í meltingarvegi.
Í rakaskemmdum byggingum vaxa einnig geislabakteríur og bakteríur sem geta framleitt ýmis eiturefni (td endotoxin). Það er margt sem ekki er að fullu vitað varðandi hvort og þá hvernig áhrif myglusveppa- og bakteríueiturs eru.
Til þess að flækja málin enn meira þá virðist vera munur á milli einstaklinga hvernig þeir bregðast við viðveru í rakaskemmdu húsnæði. Einnig geta sumir dvalið þar langdvölum án einkenna á meðan aðrir aðeins stutta stund og fundið til heilsubrests. Arfgerð einstaklinga skiptir mögulega höfuðmáli í þessu samhengi. Þá gæti það skipt máli hvort eða hversu vel líkaminn losnar við eiturefni eða vinnur úr þessum váhrifum. Það er einstaklingsbundið hversu öflugt ónæmiskerfið er og einnig virðist það skipta máli hver sjúkdómssaga einstaklinga er. Það getur því verið áskorun fyrir vísindasamfélagið að finna viðmiðunarmörk sem henta öllum.
Loftgæði innandyra:
Það eru margir þættir sem geta haft áhrif á loftgæði innandyra auk myglusveppa og lífvera sem vaxa við raka. Helst ber að nefna útgufun frá nýjum byggingarefnum eða húsgögnum eins og leysiefni, formaldehýð eða önnur límefni. Útgufun frá heimilistækjum, svifryk og fleira. Þar sem rakavandamál eru innandyra hafa rannsóknir sýnt að styrkur/þéttni ákveðinna efna er meiri en í húsnæði sem er þurrt án rakavandamála. Þegar rakavandamál kemur upp í byggingum má segja að til verði efnasúpa sem hleðst upp í lofti innandyra og verður þeim mun meiri ef loftskipti eru ekki fullnægjandi. Það eru því ekki aðeins myglusveppir og lífverur sem þarf að varast í röku húsnæði. Flókin einkenni sem tengjast innivist geta komið fram. Það hefur verið sannað að hægt er að sýna fram á tengsl ýmissa einkenna og kvilla viðveru í rakaskemmdu húsnæði.
Aðrir sjúkdómar og kvillar:
Einkenni þeirra sem dvelja í rakaskemmdum eru oftar en ekki keimlík mörgum öðrum sjúkdómum og kvillum. Rakaskemmdir eða spillt loftgæði í byggingum geta haft áhrif á þróun, ýtt undir einkenni og haft áhrif ýmissa sjúkdóma eins og MS, ME, vefjargigtar, Sjogren og fleiri sjálfsónæmissjúkdóma.
IOM (2004) Human health effects associated with damp indoor environments Institute of Medicine of the National Academies (IOM); Committee on Damp Indoor Spaces and Health, editor. Damp Indoor Spaces and Health. Washington, DC: The National Academies Press; 2004b. 5.; pp. 183–269 Sótt á vef júlí 2019
Mendell M.J, ofl. ( 2011) Respiratory and allergic health effects of dampness, mold, and dampness-related agents: a review of the epidemiologic evidence. Environ Health Perspect. 2011;119:748–756.
Mendell M.J, ofl ( 2018) Measured moisture in buildings and adverse health effects: A review Indoor air 23 April 2018 Sótt á vef júlí 2019
Miller J.D, McMullin D.R (2014) Fungal secondary metabolites as harmful indoor air contaminants: 10 years on Applied Microbiology and biotechnology 2014 Des; 98; 24 p9953-9966. Sótt á vef júlí 2019
Park J.H ofl (2006) Fungal and endotoxin measurements in dust associated with respiratory symptoms in a water-damaged office building Indoor air 2006; 16: 192-203 Sótt á vef júlí 2019
Pizzorno, j (2016) Is mold toxicity really a problem for our patients? part I—respiratory conditions Integr med (ENCINITAS). 2016 APR; 15(2): 6–10. Sótt á vef júlí 2019
World Health Organization, (2009) WHO guidelines for indoor air quality: dampness and mould. Sótt á vef júní 2019