Loftgæði
Það eru margir áhrifaþættir innandyra sem skapa innivist. Einn mikilvægasti þátturinn er loftgæði. Það skiptir okkur miklu máli hvernig loftið er samsett sem við öndum að okkur. Samsetning loftsins eða loftgæði ráðast af því hvaða efni við veljum inn í byggingar og notum við ræstingar. Notkun hreinlætisvara einstaklinga hefur einnig áhrif á loftgæði í rýmum.
Inniloft getur verið margfalt mengaðra en útiloft, jafnvel í stórborgum. Það ætti ekki að koma á óvart þar sem við erum ekki vön því að vera úti og opna glugga inn í húsið til þess að fá út ferskt loft. Við viljum einmitt frekar fá inn hreinna útiloft og skipta því út fyrir inniloftið.
Hér eru mælingar Umhverfisstofnunar á útilofti á nokkrum svæðum á landinu.
Uppsöfnun efna í innilofti
Loftið innandyra getur verið mettað af ýmis konar efnum, rokgjörnum efnum ( VOC= volatile organic compounds og SVOC = semi volatile organic compounds) til dæmis frá húsgögnum, innréttingum, hreinlætisvörum eða snyrtivörum. Þessi rokgjörnu efni geta verið varasöm í ákveðnu magni og þá einkum þegar mörg þeirra koma saman, slík áhrif eru stundum nefnd kokteiláhrif efna. Þá þarf mögulega minna magn af ákveðnu efni til þess að geta talist varasamt, þegar það er í ,,kokteil" með öðrum varasömum efnum.
Loftskipti
Til þess að mæla eða meta loftskipti er stundum notuð C02 mæling, þeas uppsöfnun á C02 er notað sem mælikvarði til þess að meta loftskipti. Þá er settur upp síriti sem mælir magn C02 í lofti í einhvern tíma. Einstök mæling gefur ekki raunverulegt magn, enda er það breytilegt eftir því hvernig notkun rýmisins er.
Ef C02 safnast upp í rými sem er í notkun og fer yfir 800ppm að meðaltali þá er talið að loftskiptum sé ábótavant. Að sama skapi má þá álykta sem svo að önnur efni nái einnig að hlaðast upp í rýminu.
Byggingarreglugerð 10.2.8 gr.: „Tryggt skal að CO2 magn í innilofti verði ekki meira að jafnaði en 0,08% CO2 (800 ppm) og fari ekki til skamms tíma yfir 0,1% CO2 (1.000 ppm).“
Inniloft veigamikill umhverfisþáttur
Sjúkdómar þróast vegna flókins samspils erfða og umhverfis. Einn veigamesti umhverfisþáttur hér á landi er inniloftið þar sem við verjum mestum hluta lífsins innandyra við leik og störf.
Hér eru nokkrar myndir fengnar af erlendum vefsíðum sem sýna hvaða þættir það eru í innilofti sem við þurfum að huga að.