Sýnataka

Engin ein tegund sýnatöku er fullnægjandi aðferð til þess að ástandsmeta rými eða byggingu.

Til þess að ástandsmeta rými eða byggingu þá eru niðurstöður úr sýnatöku eingöngu vísbendingar um ástandið.  

Það þarf að rakamæla skoða, þekkja byggingarefni, sögu hússins og eðlisfræði til þess að meta rakaástand.

En ef við tökum sýni þá geta þau aðeins svarað því sem við erum að rannsaka og spyrjum okkur að hverju sinni. 

Hér eru nokkrar vangaveltur um kosti og galla við sýnatökur:

SKYNDIPRÓF:

Tvær tegundir skyndiprófa fást hérlendis:

IAQ test

Sértækt fyrir ákveðnum tegundum og svarar jákvætt ef ákveðnar tegundir fyrirfinnast í ryki þar sem sýnatökupinna er strokið yfir. Með þessari sýnatöku er í raun skimað fyrir nokkrum tegundum sem einkenna rakaskemmdir.

Mygla sem er algeng í þakrými kemur ekki fram í þessu prófi.
Niðurstaðan er háð því að hún endurspeglar eingöngu þann stað þar sem er strokið yfir. Túlkun á niðurstöðum úr slíkum sýnum getur stundum verið flókin. Til dæmis ef það er einn svartur blettur í þéttiefni og sýnatökupinna er strokið yfir þann blett, kemur fram jákvæð niðurstaða fyrir það þéttiefni en ekki húsnæðið sem heild. Hins vegar ef það eru víða svartir blettir á vegg og pinna er strokið yfir slíkan blett, niðurstaðan getur þá endurspeglað mögulega ástand á öðrum sambærilegum svæðum á vegg. 

Prótín próf

Prótín próf eins og nafnið gefur til kynna eru ekki sértæk myglupróf heldur svara prótínum af þeim fleti sem sýnatökupinna er strokið yfir. Myglusveppir eru prótínríkir og því getur jákvæð niðurstaða gefið ákveðnar vísbendingar en svarar því ekki nákvæmlega hvort að mygla finnist eða ekki. Eins og með önnur sýni þá skiptir máli hvar þau eru tekin og hverju þeim er ætlað að svara. 

Límbandssýni

Límbandssýni eru sýni tekin þannig að þau ná ryki, gróum eða sveppþráðum á yfirborði þar sem þú leggur límbandið. Ef þú ert með myglaðan krossvið og leggur limbandið yfir þar sem myglan er ekki til staðar ( krossviður myglar misjafnlega og oft í blettum í fyrstu) þá svarar límbandssýnið því að þar sem límbandið var lagt er ekki mygla - en það segir ekki að krossviðsplatan sé án myglu - nema að þú skoðir alla plötuna og metir út frá því að hún sé einsleit og sýnið endurspegli það.

Ef þú tekur límbandssýni af ryki - hvar ætlar þú að leggja límbandið? Hvaða rannsóknarspurning liggur að baki og hverju á það að svara? Límbandssýni geta heldur ekki svarað um ástand í heilu herbergi heldur eingöngu þeim stað þar sem límbandið var lagt. Það getur líka verið afar erfitt að skoða og greina límbandssýni, það sést ekki vel hvað er í þeim (tegundir og annað) ef mikið af öðrum ögnum og ryki er til staðar. Límbandssýni geta því ekki endurspeglað ástand á húsnæði neitt frekar en sýni sem eru tekin á agar skálar þar sem er verið að telja kóloníur sem vaxa upp af gróum.

Snertisýni á agarskálar

Það er mælt gegn því  í leiðbeiningum frá Umhverfisstofnun Þýskalands að nota límbandssýni og sýni með agarskálum til þess að meta ástand á húsnæði. Límbandssýni eru því ekki fullnægjandi greiningaraðferð ef það á að meta ástand á húsnæði. En það getur gengið ef þú ert að kanna blett á timbri sem þú ert óviss um, þá getur þú tekið límbandssýni af þeim bletti og sett fram þá spurningu til dæmis er þetta skósverta eða mygla. En það er ekki víst að þú náir endilega að tegundagreina. Ef þú leggur agarskál yfir sama blettinn þá er óvissan mögulega ennþá meiri, það er að segja. Það vaxa ekki allar tegundir í sama æti, þær þurfa mislangan tíma og það er samkeppni sem kemur í veg fyrir að allar vaxi í skálinni.

Gró eru á sveimi út um allt og finnast mjög víða. Þess vegna er gagnlegt að greina og skoða hvort að þær tegundir sem eru einkennandi fyrir rakavandamál komi fram við sýnatöku.

Það er ekki talið fullnægjandi að telja kóloníur ( hneppi af myglu sem vaxa upp af gróum) til þess að ákvarða útsetningu eða ástand.

Það eru engin heilsufarsviðmið sem segja hvaða fjöldi kólonía er ,,í góðu lagi". Því miður er verið að nota aðferðir hérlendis sem eru ekki að fullu viðurkenndar og gefa ekki raunsanna mynd af rakaástandi bygginga.

Ef það er rakavandamál í byggingu er í raun auðvelt að finna það ekki þar sem það getur verið mjög falið. En komi fram frávik í rakamælingum eða skoðun þarf að skoða ástandið nánar.

Sýnatökur eða ályktun um niðurstöður er ekki stöðluð og getur það verið áskorun fyrir hagsmunaaðila að fá mismunandi niðurstöður eða vísbendingar. Mikilvægt er að hægt sé að meta niðurstöður frá fagaðilum  þannig að annar fagaðili geti endurtekið þær á sama hátt og sá sem á undan fer ( eins og vísindarannsóknir krefjast) og fengið sömu eða svipaða niðurstöðu.

Niðurstöður sýna gefa aðeins þau svör sem þeim er ætlað að svara hverju sinni og þarf að álykta um þær út frá fleiri þáttum. Rakaskimun og saga byggingar getur komið að gagni við að túlka niðurstöður.

Fjölbreytileiki örvera á milli svæða og rýma er alltaf til staðar og er háður loftstraumum, þrifum og viðveru fólks svo eitthvað sé nefnt og því eru niðurstöður úr sýnum alltaf breytilegar í tíma og rúmi.