Eldri dúkur undir nýrra gólfefni.
Eldri dúkur undir nýrra gólfefni.
Mygla
Útveggur á bak við innréttingu.
Útveggur á bak við innréttingu.
Mygla
Mygla í þakvið
Mygla í þakvið
Mylga
Mygla undir dúk.
Mygla undir dúk.
Mygla
Mörg lög af gólefnum undir parketi
Mörg lög af gólefnum undir parketi
Mygla

Viðgerðir & úrbætur á rakaskemmdum

Ávallt skal leita til fagaðila sem hafa sérþekkingu á viðgerðum á rakaskemmdum þegar umfang er meira en húseigandi getur sjálfur framkvæmt. 

Venjulega getur íbúi sjálfur fylgst með rakaþéttingu við rúður og við kuldabrýr og fjarlægt ryk eða skán af þeim svæðum. Hægt er að fylgja þessum leiðbeiningum á þessari síðu - Hreinsun við rúður. Ef umfangið er mikið skal þó leita til fagaðila.

Mygla á steypu, málningu eða öðrum yfirborðsflötum:

Venjulega dugar að hreinsa yfirborð málningar eða annarra efna sem eru með tiltölulega lokuðu yfirborði með vetnisperoxíði, edikblöndu og/eða mildum sápuefnum. Ef myglan er hins vegar komin í gegnum yfirborðsefnið eins og t.d. málningu þá er í flestum tilfellum mælt með því að fjarlægja málninguna með því steinslípa og jafnvel brjóta ílögn/múr/steypu að einhverju leyti í burtu hvort sem er í vegg, lofti eða gólfi.
Fylgja skal  almennum leiðbeiningum frá Umhverfisstofnun um hreinsun rakasvæða. Í sumum tilfellum er hægt að skafa málningu af vegg/lofti/gólfi þar sem skemmdir eru og skafa yfir múr/steypu með vírbursta en þó skal ávallt ryksuga á því svæði sem framkvæmt er. Ryksugan þarf að vera með HEPA síu (H12 eða betra) til þess að geta komið í veg fyrir/minnkað hugsanlega dreifingu myglugróa, örvera og afleiðuefna.

Það skal tekið fram að málning með mygluhemjandi efnum kemur ekki í veg fyrir myglusveppavöxt þar sem raki er viðvarandi og er eingöngu mælt með að nota í rýmum þar sem ekki er föst viðvera. Efnin sem gera málninguna mygluhemjandi geta verið slæm fyrir inniloft og ætti því ekki að nota í svefnrýmum.

Raki á bak við flísar:

Almennt ef raki mælist bak við flísar þá skal taka flísar af vegg/gólfi og skoða og meta fúgu og flísalím. Skoða þarf inn í veggi ef þeir eru léttir eða forskalaðir ef útiloka á að raki og mygla hafi náð frekari fótfestu.
Ef mygla finnst þá skal fylgja bæklingi varðandi hreinsun rakasvæða eða fá til þess fagmann sem þekkir til mygluhreinsunar ef umfangið er mikið. Ef hækkaður raki mælist bak við flísar (en þó ekki meiri en aðeins hækkaður) þá er oft nóg að fjarlægja fúgur í kringum þær flísar sem raki mælist undir og hleypa þannig raka út undan flísunum áður en fúgað er aftur.
Í öllum tilfellum er mælt með að rakaverja fúgur reglulega og hreinsa sápuleifar og annað í burtu. Ef ákveðið er að skipta um fúgur þá er mælt sterklega með því að nota epoxy fúgu í stað hefðbundinnar sementsfúgu í votrými. Fylgjast þarf með þéttiefnum í votrýmum, svo sem á samskeytum á milli veggja, veggja og gólfs og á bak við rósettur í kringum lagnir. Einnig þarf að skoða reglulega hvort að sprungur eru í fúgu eða blettir sem gefa til kynna rakasöfnun.

Raki/leki í vegg:

 Ef raki mælist í vegg sem er úr lífrænu efni, timbur, spón, gifsi eða álíka þá er alltaf mælt með því að opna inn í vegginn og skoða og fjarlægja ávallt allt skemmt byggingarefni og fylgja fyrrgreindum leiðbeiningum varðandi hreinsun steypu ef mygla hefur mögulega borist í hana. Forskalaðir veggir eru veggir sem eru oft með timburgrind innst inni í vegg, næst steyptum útvegg og á timburgrindina er svo múrað, þannig að ef raki mælist í slíkum vegg er eindregið mælt með því að opna inn í hann og skoða. Ef mygla finnst þá skal fylgja ráðgjöf um hreinsun í bæklingi Umhverfisstofnunar. Steinsteyptir veggir eða hlaðnir veggir, hvort sem er úr gifssteini eða vikri eru einna mest tregir til að mygla, enda ekki mikið um lífrænt efni í þeim, en þó hefur mygla komið fram nokkrum sinnum í sýnatökum í slíkum veggjum. Þegar málning bólgnar á þannig veggjum vegna leka þá er yfirleitt mælt með því að skafa málningu af vegg/lofti/gólfi þar sem skemmdir eru og skafa yfir múr/steypu með vírbursta en þó skal ávallt ryksuga á því svæði sem framkvæmt er. Ryksugan þarf að vera með HEPA síu (H13 eða betra) til þess að geta komið í veg fyrir/minnkað hugsanlega dreifingu myglugróa eða örvera. Á svæðum þar sem myglan er kominn inn í steypuna /múrinn þá er mælt með steinslípun eða að fjarlægja myglaða hluta efnisins í burtu.

Raki í gólfi:

Ef raki mælist í gólfi þá skal koma í veg fyrir rakamyndun og fjarlægja skemmd byggingarefni. Ef mygla reynist vera undir gólfefni þá skal fylgja leiðbeiningum bæklings eða fá til þess fagmann sem þekkir til mygluhreinsunar. Þar sem parket er lagt ofan á undirlag er sjaldan að finna myglu í parketinu sjálfu, heldur frekar í undirlaginu sem snýr að gólffleti. Ef mygla finnst er í Í flestum tilfellum mælt með því að steinslípa steypu og jafnvel brjóta ílögn/steypu að einhverju leyti í burtu til að losna við myglu og bakteríur ef hún er farin að vaxa inn í steypuna, hvort sem er í vegg eða gólfi. Fylgja skal svo almennum leiðbeiningum bæklings. Þegar raki mælist í útvegg eða millivegg má oft gera ráð fyrir raka í aðliggjandi gólfplötu og ef þar ofan á er dúkur eða parket þarf að skoða ástandið þar undir. Ávallt skal kanna ástand undir því gólfefni sem liggur næst gólfplötu. Vert er að athuga að þegar parket er á gólfi þá er oft á tíðum mjög erfitt að rakamæla. Parket er í mismunandi þykktum með mismunandi undirlagi og ef of hár raki er í steypu eða öðru efni sem er fyrir neðan yfirborð parkets þá ná mælar oft ekki að nema rakann. Varhugavert er að fullyrða að ekki sé neitt að parketi eða undirlagi þess nema að parketi sé lyft og allir byggingarhlutar skoðaðir. Þar ber helst að nefna venjulegt undirlag og allt það sem þar er undir. Dæmi má nefna að í mörgum tilfellum er parketlagt ofan á dúka, flísar, teppi, kork og fleira. Ef eitthvað af þessum efnum hefur fengið að blotna á líftíma hússins þá er ómögulegt að segja til um hvort myglu sé að finna undir þessum undirlögum eða jafnvel beint undir parketi. Oft er misskilningur um að ef ekki mælist raki þá sé ekkert að, en það á alls ekki við. Þurr gömul mygla dreifist enn frekar, og þegar gengið er á parketi þá þrýstast agnir upp meðfram úthring parkets þar sem parket mætir vegg og veldur þurr mygla sömu einkennum og blaut mygla Alltaf þarf að athuga undir parket ef fólk ætlar að fullvissa sig um ástand.

Gifsklætt/spónaplötuklætt að innan á útveggjum:

EF útveggir eru klæddir að innan með gifsi/spónaplötu eða öðru lífrænu efni og einangrað með einhvers konar grind með ull á milli þarf að kanna ástand á bak við klæðninguna. Hætta er á rakaþéttingu ef frágangi á rakavörn er ábótavant í svona uppbyggðum veggjum. Ef leki er til staðar í slíkum útveggjum er alltaf hætta á að vatn komist í gifs og jafnvel timbur ef það er sem grindarefni og ekki er alltaf hægt að mæla eða sjá þannig leka fyrr en bólgur koma fram í gifsi. Fylgjast verður vel með veggjum og sérstaklega í kringum glugga, því ef einhverjar bólgur byrja að myndast á vegg þarf að grípa strax til aðgerða. Gifsplötur (pappír og lím á gifsplötum) eru sérstaklega viðkvæmar og eru fljótar að mygla.

Minnisblað um einangrun útveggja má finna hér á vef