Hreinsun við rúður eða í hornum

1. Orsök

Ganga úr skugga um hver sé orsök fyrir örverum við rúður eða í gluggakörmum.

Athuga eftirfarandi: 
- Er of mikill loftraki innandyra vegna lifnaðarhátta eða leka (ákjósanlegt   undir 55% að jafnaði)
- Er einangrun ábótavant í rúðum eða í kringum glugga/rúður
- Eru þéttingar ekki nægilegar í kringum glugga/rúður eða loftlekar til staðar, skoða ástand á glugga og karmi, úti og inni.
- Getur þurft að opna oftar glugga eða auka loftskipti (koma í veg fyrir rakasöfnun innandyra við baðferðir, eldun eða þurrkun þvotta)
- Gardínur eru of þétt við rúður, lítið loftflæði
- Er leki til staðar í kringum eða við glugga; frá plötuskilum, gluggum eða útvegg, jafnvel frá efri hæð (sjáanleg ummerki eins og bólgin málning, litabreytingar, þrútin byggingarefni eða ummerki í gólfefni eða á                    gólflistum neðan við glugga). 
- Ef um kjallara er að ræða og grunur um raka í gólfplötu eða útveggjum er   mælt með að skoða drenlagnir, skólp og affall frá þaki.

Í þeim tilfellum þar sem eru undirliggjandi rakavandamál annars staðar í húsnæði þarf að uppræta þau því annars kemur upp örveruvöxtur við rúður jafn óðum. Í þeim tilfellum er aukið grómagn innandyra og þau vaxa auðveldlega upp við rúður við rakaþéttingu. Í öðrum tilfellum er vandinn einangraður við rakaþéttingu á rúðum sjá hér

2. Hvar er örveruvöxtur

Athuga hvort að mygla/bakteríur eru á yfirborði eingöngu eða hafi náð að vaxa inn í málningu, þéttiefni, timbur eða byggingarefni.

Ef mygla eða örverur hafa náð að vaxa inn í málningu eða þéttiefni þarf að fjarlægja þann hluta með slípun eða skröpun.

3. Undirbúa hreinsun 

Mikilvægt er að róta ekki upp ögnum sem þyrlast um í inniloftið án þess að gæta varúðar. Gott er að bleyta fyrst upp í svæðinu til að hefta loftbornar agnir. Tryggja að ekki verði krosssmit við nærliggjandi húsmuni eða rými.

Velja skal hentugt efni fyrir hvert tilefni. Efni sem eru ertandi skal ekki velja í svefnherbergi eða í umhverfi barna.

Nota einnota, tusku, svamp, þvottabursta eða tannbursta til þess að fjarlægja alveg ummerki við rúður eða í gluggakistum.

Þegar um svefnherbergi er að ræða er mikilvægt að velja heilnæmt efni sem inniheldur ekki óvistvæn, heilsuspillandi, eitruð efni eða ilmefni. Í einhverjum tilfellum dugar mild sápa og vatn ef um nýlega yfirborðsmyglu er að ræða.

Þar sem um er að ræða myglu og bakteríur í flestum tilfellum er mælt með að nota efni í lokin með sótthreinsunareiginleika eins og 3-5% blandað vetnisperoxíð (Oxivir) eða efni sem inniheldur ammoníumklórið (td. Rodalon) til þess að fjarlægja af yfirborði. Vetnisperoxíð er vistvænna og minna ertandi en ammoníumklóríð efni. Sótthreinsunarspritt yfir 75% getur einnig komið að gagni. Einnig er hægt að nota hypochlorite efni til sótthreinsunar sem lokaskref og önnur efni sem henta í hvert skipti. Ekki er mælt með að nota klór til hreinsunar á rakaskemmdum svæðum þar sem notkun á slíkum efnum getur blekkt og aflitað örverur þannig að þær eru ekki lengur sjáanlegar en vissulega til staðar. Einnig er klór ætandi fyrir byggingarefni,  ertandi og ekki ætlaður til notkunar í vistarverum.

Þeir sem þola ilmkjarnolíur geta notað tea tree olíu blandaða í vatn og borið á timbrið eftir hreinsun til forvarnar. 

Þegar eingöngu eru notuð efni til hreinsunar eða úðunar (ekki fjarlægt) og jafnvel efni sem duga illa þá er hætta á að örverur bregðist við með því að framleiða enn meira af gróum eða afleiðuefnum eins og eiturefnum (biotoxinum) (Bloom, 2008).

-Velja hentugan hlífðarbúnað miðað við aðstæður ( hanska, grímu)
-Huga að búslóð og nærliggjandi rýmum áður en er hreinsað ef hætta er krosssmiti.
-Haga  aðgerðum  í samræmi  við  aðstæður (svefnherbergi, bílskúr eða annað)
-Fá  ráðgjöf fagaðila  ef  eitthvað  er  óljóst  með  framkvæmd.

4. Fylgjast með í framhaldi

Ef það kemur aftur mygla/bakteríur innan skamms þarf að skoða betur orsök og kanna aðstæður. Þá er gott að fá fagaðila sem notar rakamæli, rakaskimar og hefur þekkingu á rakaskemmdum og afleiðingum.

Ekki er mælt með að taka einföld grósýni með agarskálum eða ryksýni til þess að meta ástand bygginga. Niðurstöður slíkra rannsókna enduspegla ekki rakaástand bygginga heldur þarf fagaðila sem þekkir rakaskemmdir, afleiðingar og viðbrögð (Mendell, 2021).

5. Fyrirbyggja og bregðast við

Mælt er með að fjarlægja ummerki og hreinsa við rúður reglulega til þess að takmarka grómagn í lofti. Þurrka upp raka á köldum vetrardögum og fylgjast með loftraka.