Loftraki innandyra sveiflast eftir árstíðum og veðurfari hverju sinni. Það getur því verið mismunandi eftir tíðarfari hver hlutfallsrakinn er úti og inni.
Venjulega er þó mælt með því að loftraki innandyra fari ekki mikið yfir 55% á köldum vetrardögum og er æskilegur á bilinu 30-40%. Á sumrin eða þegar hlýrra er getur loftrakinn verið á bilinu 45-55% innandyra án þess að það skapi vandamál.
Loftraki yfir 70% er ekki æskilegur innandyra og þá sérstakleg aí húsum sem eru einangruð að innanverðu, eins og langflest húsin okkar eru í dag.
Rakamagn frá 4 manna fjölskyldu á hverri viku getur verið 10-40 lítrar sem fer í inniloftið og getur daggað á köldum flötum við kuldabrýr eða innan í útveggjum eða í þakrými sem dæmi.
Loftraki endurspeglar ekki endilega raka í byggingarefnum. Til þess að örverur geti vaxið upp á yfirborði eða í byggingarefnum þarf ákveðinn tiltekinn raka sem er ,,aðgengilegur" fyrir örverur. Hlutfallsraki í byggingarefnum getur sveiflast með loftraka. En það getur verið nægilegur raki til staðar í byggingarefnum sem styður vöxt rakasækinna örvera þrátt fyrir að loftraki í tilteknu rými sé ekki yfir 65-70%.
Einfaldar loftrakamælingar gefa því ekki endilega vísbendingar um rakavandamál vegna leka eða vatnstjóna.
Það þarf því að skoða raka í byggingarefnum sérstaklega og aðskilið frá loftraka.
Loftraki sem fer yfir 70% getur aftur á móti stuðlað að hærri efnisraka á yfirborði byggingarefna eða tiltækan raka í þeim.
Það þarf því alltaf að skoða bæði loftraka og efnisraka í byggingarefnum til þess að meta hvort að áhætta er til staðar fyrir örveruvöxt.
Raki í byggingarefnum er stundum metinn með svokölluðum snertirakamælum sem er lagður á flötinn sem skal meta. Ef að mælir sýnir hækkaðan raka á ákveðnum svæðum umfram svæði sem má áætla að séu þurr þarf að kanna aðstæður betur. Snertirakamælar gefa því vísbendingar um hvort að vandamál tengd raka séu til staðar.