Þvottavélar og örverur

Mygla hreiðrar oft um sig í þvottavélum

Þar sem gró eru á sveimi utandyra og alls staðar í kringum okkur lenda þau óhjákvæmilega á flíkum okkar þegar við ferðumst um. 

Í þvottavélum og þá einkum í sápuhólfi er afar hagstætt fyrir myglu og bakteríur að vaxa upp. Þar er nægur raki, æti og lítil samkeppni.

Oft má þá sjá grá, græna, svarta, brúna eða jafnvel appelsínugula tauma, slikju eða ,,slím" í sápuhólfinu og á stútum ofan við sápuhólfið þar sem vatnið kemur niður í hólfið (sjá mynd). 

Í einhverjum tilfellum er einnig hægt að sjá örveruvöxt í gúmmiþéttingum í kringum hurð og í verstu tilfellum þá eru komnar örverur utan um tromluna, innan í rör og þéttingar. 

Ummerkin eru oftast sjáanleg en einnig er það sterkt einkenni ef það kemur óþægileg eða vond lykt af þvotti. Oft á tíðum er þá brugðist við með því að setja lyktarefni, mýkingarefni með lykt eða sterklyktandi þvottaefni. En það er ekki lausn á vandanum.

Helstu ráð til þess að halda þvottavél ,,hreinni":

-Ekki loka þvottavél á milli þvotta

-Ekki loka sápuhólfi, örlítil rifa dugar, sértaklega þegar farið er í ferðalög

-Sjóða reglulega þvott eða tóma vél

-Fylgjast með sápuhólfinu og hreinsa reglulega

-Sleppa notkun á mýkingarefni

-Nota helst umhverfisvæn ilmefnalaus þvottaefni

-Nota mild sótthreinsiefni annað slagið í þvott eða tóma vél

-Nota matarsóda eða edik sem þvottaefni annað slagið

Hvað geri ég ef það er komin mygla í þvottavélina mína?

Sápuhólf: Opnar sápuhólf, tekur út úr hólfinu og fjarlægir alveg slikju og annað af sápuhólfi með bursta og sótthreinsandi efni. Einnig þarf að nota uppþvottabursta eða flöskubursta sem síðan er fargað til þess að þvo innan úr hólfinu sem sápuhólfið situr í.

Gúmmíhringur: Fjarlægja alla slikju með bursta eða öðru áhaldi sem hentar.

Rör niður úr sápuhólfi: Fjarlægja það sem hægt er með flöskubursta.

Hjálparefni við hreinsun eru til dæmis Rodalon, Oxivir eða önnur sótthreinsiefni sem eru ekki mjög ertandi og ilmefnalaus. Einnig getur gagnast að nota matarsóda og vatn. 

Hér má sjá örverur vaxa við stúta fyrir ofan sápuhólfið

Hér má sjá örverur vaxa við stúta fyrir ofan sápuhólfið